Búseti nr. 1

Dregið um félagsnúmer

Það var ásetningur Búseta frá upphafi að félagsmenn fengju félagsnúmer og íbúðum félagsins síðan ráðstafað í númeraröð. Þessi númeraröð er enn við lýði hjá félaginu.

Frá því að hugmyndin að stofnun Búseta varð aðveruleika hófst skráning félagsmanna. Gríðarlegur áhugi var á félaginu og félagsmönnum fjölgaði stöðugt. Ákveðið var að þriðjudaginn 21. febrúar 1984 yrði dregið um félagsnúmer þeirra sem gengið höfðu í félagið fyrir 15. desember 1983 og greitt stofngjald 1. febrúar 1984. Þeir félagsmenn sem uppfylltu þessi skilyrði kölluðust stofnfélagar.

Það var spennuþrungið andrúmsloftið í Hamragörðum daginn sem dregið var um félagsnúmer 1448 stofnfélaga Búseta. Leitað var til sýslumannsembættisins í Reykjavík um eftirlit með drættinum. Þorkell Gíslason, fulltrúi Borgarfógeta, mætti á staðinn og fylgdist með tölvu sem úthlutaði númerum og sá um að allt færi fram á löglegan hátt. Auðvitað hafði heyrst sú saga að sjálfsagt yrðu forsvarmenn Búseta með lægstu númerin, en tryggja þurfti að allt færi rétt fram. Niðurstaða var að ungur maður, Páll Ingi Kristjánsson, 21 árs iðnnemi úr Kópavogi, hlaut félagsnúmerið 1. Hvað varðar stjórnendur Búseta reyndist meðalnúmer þeirra vera um 1000. Lægsta númer stjórnarmanna hlaut Guðni A. Jóhannesson, nr. 267 og hæsta númer féll i skaut Gísla Hjaltasyni, nr. 1443. Engir eftirmálar urðu af þessum drætti.

Dregið um félagsnúmer í Hamragörðum