Frostafold 18-20

Hátíðleg athöfn var í samkomusal hússins á 9. hæð

Athöfnin var sett upp sem 100. stjórnarfundur Búseta og var fyrsta og eina mál á dagskrá fundarins formleg afhending hússins. Aðalsteinn Hallgrímsson, framkvæmdastjóri Hagvirkis, afhenti formanni veglegan lykil sem tákn um afhendingu hússins og Elín Garðarsdóttir flutti ávarp fyrir hönd væntanlegra íbúa.

Páll Gunnlaugsson formaður Búseta tekur við táknrænum lykli úr höndum Aðalsteins Hallgrímssonar framkvæmdastjóra Hagvirkis

Eftir þennan eina dagskrárlið sagði fundarstjóri, Guðni A. Jóhannesson, orðið laust. Fyrst kvaddi sér hljóðs Jóhanna Sigurðardóttir félagsmálaráðherra. Hún óskaði félaginu til hamingju með áfangann og sagði ljóst að Búseti væri kominn til að vera. Næstur tók til máls Alexander Stefánsson, fyrrverandi félagsmálaráðherra, og rakti samskipti sín og Búseta í sinni stjórnartíð. Einnig tók til máls Eysteinn Jónsson, fyrrverandi fjármálaráðherra. Sagði hann m.a. að í gegnum sitt starf að umbótum í húsnæðismálum í gegnum tíðina hefði sér oft virst sem einhvers væri vant í íslenska húsnæðiskerfinu. Sér hefði verið ljóst við stofnun Búseta hvað það var. Íslendingar hafa aldrei getað litið á rétt sem eign. Það verður að vera steypa eða eitthvað sem vegur í kílóum. Það að búseturéttur sé „eign“ skilur Íslendingurinn ekki.