Hús með mikla sögu
Húsið Hamragarðar stendur á horni Hofsvallagötu og Hávallagötu og er skráð nr. 24 við Hávallagötu.
Þegar stofnun húsnæðissamvinnufélags komst á dagskrá var Reynir Ingibjartsson starfsmaður Landsambands íslenskra samvinnustarfsmanna (LÍS) og hafði aðsetur í Hamragörðum. Saga hússins er um margt fróðleg.
Guðrún og Jónas
Jónas Jónsson frá Hriflu var fyrsti skólastjóri Samvinnuskólans sem rekinn var í Sambandshúsinu við Sölvhólsgötu frá 1918-1955. Í skólahúsinu bjuggu skólastjórinn og eiginkona hans, Guðrún Stefánsdóttir, auk dætra þeirra Auðar og Gerðar. Það þótti ástæða til að Jónas og Guðrún fengju íbúðarhús við hæfi til búsetu. Kannski var ástæðan sú að skólinn vildi fá rýmið fyrir starfsemi sína, en hvað sem því líður, stóðu ýmsir vinir og velunnarar Jónasar, ekki síst Guðjón Samúelsson, húsameistari ríkisins, að því að byggt var gott hús fyrir skólastjórann. Bjarni Benediktsson, þáverandi borgarstjóri, sá til þess að það fékkst lóð á góðum stað í bænum og varð horn Hávallagötu og Hofsvallagötu fyrir valinu. Við hliðina bjó svo Vilhjálmur Þór, forstjóri SÍS 1946-1955.
Húsið er einfalt að gerð, í eins konar nýklassískum stíl, en sagan segir að Jónas hafi ráðið miklu um hvernig húsið var teiknað. Jónas og Guðrún fluttu í Hamragarða árið 1941. [...]
Hamragarðar standa við Hávallagötu 24
Í júníbyrjun 1971 var húsið vígt sem félagsheimili fyrir Nemendasamband Samvinnuskólans og félög samvinnustarfsmanna. Það þótti afar viðeigandi að hús Jónasar frá Hriflu fengi þetta hlutverk. Þetta kallaði á ýmsar breytingar hjá félögunum, þar sem meðal annars var skilyrði af hendi SÍS að í húsinu yrði húsvarsla. Þá voru þau Ólöf Jónsdóttir og Eiríkur Guðmundsson húsverðir og héldu því starfi til 1975. Þá þurfti starfsmann og auglýst eftir slíkum. Það háttaði svo til hjá Reyni og eiginkonu hans, Ritvu Jouhki, að þau voru í húsnæðisleit svo þetta var kannski álitleg lausn fyrir fjölskylduna? Tvær flugur í einu höggi; starf og húsnæði? Reynir og Ritva sóttu um starfið og fengu. Reynir hafði verið starfsmaður LÍS, sem fékk skrifstofu í Hamragörðum og þá voru hæg heimatökin og ekki þurfti annað en að fara á milli hæða í vinnuna. Reynir og Ritva réðu húsum í Hamragörðum 1975-1992, eða í 17 ár og þau hjón vissu aldrei hvort þau voru heima hjá sér, á skrifstofu LÍS, eða á einhverjum fundum hinna ýmsu félaga LÍS – og síðar Búseta.
Haustið 1983 var ákveðið að skrifstofa LÍS flyttist norður yfir heiðar til Akureyrar. Þar voru mjög öflug og stór samvinnufyrirtæki svo úr varð að skrifstofan og þungi starfseminnar flutti þangað. Það lá því beint við að Reynir yrði að skipta um starfsvettvang og varð úr að hann hellti sér óskiptum í að sinna stofnun hins nýja félags, Búseta, sem þá var í undirbúningi. Undirbúningsfundir að stofnun Búseta fóru því fram í Hamragörðum. Má segja að Búseti hafi „tekið yfir“ Hamragarða við brotthvarf sambandsstarfsmanna. Þar var rýmið, þar var andinn og þar var frumkvöðullinn!