Málþing á Hótel Sögu
Starfsfólk Búseta hafði fylgst með því sem var að gerast á hinum Norðurlöndunum með þátttöku í NBO og nokkuð tíðum heimsóknum og skoðunarferðum. Við fórum t.d. í stutta ferð á byggingarsýninguna BO85 í Stokkhólmi þar sem nýjungar í íbúðarbyggingum voru kynntar. Þar voru m.a. íbúðir fyrir hina „nýju fjölskyldu 21. aldarinnar“. Hvernig var svo nýja fjölskyldan? Jú, fyrir utan hina hefðbundnu; karl, kona, börn og bíll, voru einstæðingar, einstæðir foreldrar, fráskildir foreldrar þar sem börnin bjuggu hjá foreldrum til skiptis, heimavinna, barna og fullorðinna og fleira. Hentaði hin hefðbundna íbúð öllum fjölskylduformum? Voru ekki allar íbúðir hannaðar fyrir hina hefðbundnu fjölskyldu þar sem foreldrar stunduðu sína vinnu utan heimilis og börnin voru í skóla og frístund á daginn? Eigum við ekki að ræða þetta? Ákveðið var að blása til málþings árið 1995 á Hótel Sögu undir yfirskriftinni „Heimilið á 21. öldinni“.
Hér kölluðum við til framsögu fólk sem þegar hafði unnið sér sess á þessum vettvangi og aðra sem voru á uppleið og áttu eftir að koma við sögu húsnæðismála á Íslandi. Ragnar Aðalsteinsson hrl. fjallaði um heimilisrétt, Trausti Valsson arkitekt um þéttbýli-dreifbýli, Jón Ólafur Ólafsson arkitekt um skipulag og umhverfi, Þórunn Pálsdóttir verkfræðingur um byggingariðnaðinn, Jón Rúnar Sveinsson félagsfræðingur um einkavæðingu-almannasamtök, Guðrún Jóndóttir arkitekt um menningarheimilið og loks Hörður Bergmann um fjármögnun.
Hörður, Guðrún, Jón Rúnar, Þórunn, Ragnar, Jón Ólafur og Trausti
Þegar hér var komið sögu voru búseturéttaríbúðir á landinu öllu orðnar um 400 í 14 búsetufélögum. Við vorum komin með einstaka stöðu á íbúðarmarkaðnum þar sem ekkert sambærilegt félag var starfandi, ef undan voru skildar íbúðir sveitarfélaga, sem á þessum tíma voru oftast vistaðar í skrifborðsskúffu starfsmanna sveitarfélaga.