Íbúðirnar teknar í notkun árið 2020
Í janúar 2015 skrifuðu Reykjavíkurborg og Búseti hsf. undir viljayfirlýsingu þar sem kveðið var á um að Búseti kæmi að uppbyggingu íbúða á lóðinni Keilugranda 1. Í viljayfirlýsingunni var gert ráð fyrir að uppbygging lóðarinnar yrði í samræmi við markmið húsnæðisstefnu um fjölbreyttar húsagerðir, blöndun íbúðargerða innan hverfa og aukið framboð smærri íbúða, fyrir alla samfélagshópa. Þannig yrði stuðlað að fjölbreyttara húsnæðisframboði breiðs hóps í samfélaginu og reynt að skapa húsnæðisgrundvöll fyrir fjölda einstaklinga sem annars gætu þurft á aðstoð að halda og þar með byggð brú á milli leigu- og eignaríbúða. […]
Starfsfólk og stjórn Búseta á byggingasvæðinu við Keilugranda. Hönnun A2F arkitekta í bakgrunni
Áhersla var lögð á aðlaðandi og vistlegt yfirbragð og gróðursæla ásýnd með vönduðu og samræmdu efnisvali. Einnig var áhersla lögð á að styrkja göturými að Keilugranda og Eiðsgranda og móta jafnframt skjólgott og notalegt garðrými hlémegin gatna. Auk skilgreindra sérnotahluta utan við íbúðir jarðhæða byði garðrýmið upp á fjölbreytta notkun, t.d. með stígum, gróðri og ræktunarreitum sem stuðluðu að aðlaðandi yfirbragði, vistvænum áherslum íbúa og félagslegum tengslum. Við mótun lýðheilsureits yrði litið til tækifæra íbúa og nærsamfélags til hreyfingar og útivistar í samráði við KR. Lýðheilsureiturinn tengist stígakerfi svæðisins og umhverfis að skóla, leikskólum, KR-svæði, strandlengju og víðar. Ekki var gert ráð fyrir bílageymslum neðanjarðar en bílastæðum komið fyrir á landi víða um svæðið.
A2F arkitektar, með arkitektana Aðalheiði Atladóttur og Falk Krüger í forsvari, tóku að sér hönnun íbúða við Keilugranda. Samtals eru íbúðir 78 talsins, frá 40 m² að 125 m². Félagsbústaðir eiga 11 íbúðir á lóðinni og þar af er ein sem sérstaklega er ætluð stuðningsaðilum skjólstæðinga velferðarsviðs Reykjavíkurborgar.
Falk Krüger og Aðalheiður Atladóttir hjá A2F
Kynningarfundur fyrir áhugasama var haldinn í október 2019 og var mjög vel sóttur. Mikil eftirspurn var eftir íbúðum við Keilugranda og voru þær teknar í notkun árið 2020.
Keilugrandi í byggingu, Bjarni Þór Þórólfsson framkvæmdastjóri ásamt stjórn og starfsmanni