NBO

Í gegnum árin hefur NBO gefið út skýrslur og bækur um hin ýmsu málefni tengd húsnæðismálum. Má nefna sem dæmi ritið ... og den som kommer aller sist – Boligsegregationen i Norden og den nye underklassen sem gefið var út 1996 og fjallar um áskoranir í húsnæðismálum. Þau sem hafa það gott bjarga sér eins og alltaf áður, en hin, sem minna mega sín (m.a. láglaunafólk og fólk af erlendu bergi brotið) lenda undir. Ný lágstétt verður til og þar eru margir innflytjendur.

Árið 2022 gaf NBO út skýrslu Staða húsnæðismála á Norðurlöndunum – Hagkvæmt húsnæði og loftslagsmálin. Hér er áherslan á loftslagsmál og grænar lausnir og hvernig við getum uppfyllt þær kröfur sem til okkar eru gerðar – og við gerum sjálf í loftslagsmálum. Í skýrslunni er kafli um Ísland þar sem meðal annars er sagt frá aðgerðaáætlun ríkisstjórnarinnar í loftslagsmálum 2020-2030 sem felur í sér aðgerðir vegna losunar byggingariðnaðar og hvernig á að draga úr þeim.

Þátttaka Búseta í samstarfi NBO hefur verið gefandi frá fyrsta degi. Við fengum góðan stuðning við stofnun félagsins og æ síðan góð ráð og félagslegt aðhald. Með breyttum heimi, þar sem enginn er eyland hefur vægi samstarfsins aukist. Þó að húsnæðiskerfin séu um margt ólík stöndum við öll frammi fyrir sama ákalli um breyttan heim og nýja hugsun. Þar eigum við samleið.

Til að fræðast meira um þetta áhugaverða samstarf í húsnæðismálum má nefna að NBO heldur úti heimasíðu nbo.nu.

Auk Búseta eiga Félagsbústaðir aðild að NBO. Í stjórn NBO eru frá Íslandi Bjarni Þór Þórólfsson, framkvæmdastjóri Búseta, og í varastjórn Sigrún Árnadóttir,framkvæmdastjóri Félagsbústaða.

Bjarni Þór Þórólfsson framkvæmdastjóri Búseta fjórði f.v. ásamt félögum sínum í NBO