Vendipunktur í starfi félagsins
Í október 2011 auglýsti Reginn ehf. sem þá var fasteignafélag tengt Landsbanka Íslands, eftir áhugasömum aðilum sem vildu kaupa eða þróa verkefni á byggingareit milli Einholts og Þverholts í Reykjavík. Markmið Regins ehf. var að hámarka verðmæti verkefnisins og að það skilaði sem fyrst arði til félagsins, hvort heldur sem var með beinni sölu eða áframhaldandi þróun í samstarfi við trausta og áhugasama aðila.
Mögulegir kaupendur og samstarfsaðilar skyldu valdir í opnu ferli sem fólst í samkeppni um álitlegustu viðskiptahugmyndina til að ná markmiðum Regins. Í kjölfar hennar myndu fara fram samkeppnisviðræður um framhald verkefnisins.
Í gildi var deiliskipulag fyrir svæðið, samþykkt 29. nóvember 2007. Byggingarfélag námsmanna hóf framkvæmdir sama ár við byggingu 470 íbúða, þar af 380 fyrir námsmenn. Búið var að brjóta niður í klöppina gríðarlegan grunn sem staðið hafði opinn til ársins 2011, í töluverðri ósátt við nærsamfélagið. Eftir hrun tók Landsbanki Íslands verkefnið yfir og Reginn fékk það hlutverk að þróa það eins og áður sagði.
Niðurstaðan var að Búseti keypti þessa framkvæmd af eigendum og hóf vinnu við að endurskipuleggja lóðina. Bygging íbúða á þessum reit var vendipunktur í starfi félagsins á margan hátt. Lóðin var keypt á opnum markaði eftir útboð. Fjármögnun var sótt á markað en ekki til Íbúðalánasjóðs eins og oftast áður. Samningar um fjármögnun kaupanna voru gerðir við Regin/Landsbankann í mjög góðu samkomulagi og höfðu Katrín Sverrisdóttir og Helgi S. Gunnarsson umsjón með gerð þeirra fyrir hönd Regins. Undirritaður var kaupsamningur 1. mars 2012.
Fagnað við lok fyrsta áfanga Smiðjuholts. Hér er borgarstjóri fyrir miðju, ásamt starfsmönnum borgarinnar og Búseta
Í tillögu að breyttu deiliskipulagi var leitast við að mæta þeim markmiðum sem sett eru fram í aðalskipulagi Reykjavíkur, þar sem lögð er áhersla á sjálfbæra þróun, fjölbreytt framboð íbúða á þéttingarsvæðum og aukna áherslu á vistvænar samgöngur.
Í Smiðjuholti eru samtals 203 íbúðir, 184 eru í eigu Búseta og 19 íbúðir eru í eigu Félagsbústaða. Sameiginlegt þvottahús, með aðgangi að þvottavélum og þurrkurum er á fyrstu hæð byggingar á horni Einholts og Háteigsvegar. Einnig er sameiginlegur salur sem íbúar geta notað samkvæmt reglum búsetufélags.