Mangómálið

-örlagasaga

Alexander Stefánsson félagsmálaráðherra lagði fram frumvarp á þingi árið 1984 sem opna átti fyrir lánveitingar úr Byggingasjóði verkamanna til hópa sem ekki féllu þá þegar beint undir sjóðinn. 33. gr. frumvarpsins fjallaði um Byggingarsjóð verkamanna og félagslegar íbúðir. Þar er tilgreint hvaða íbúðir teljast félagslegar. Þar sagði í c) lið: „Leiguíbúðir, sem byggðar eru eða keyptar af sveitarfélögum, stofnunum á þeirra vegum og/eða ríkisins eða félagasamtökum og ætlaðar eru til útleigu við hóflegum kjörum fyrir námsfólk, aldraða, öryrkja og aðra, sem ekki hafa aðstöðu til þess að eignast eigið húsnæði við hæfi.“ Þorsteinn Pálsson, þá formaður Sjálfstæðisflokksins, mælti fyrir breytingartillögu við þetta frumvarp þann 14. maí 1984 þar sem gert var ráð fyrir að settur yrði punktur á eftir orðinu öryrkja – og niður félli það sem á eftir kæmi, sem sagt „og aðra, ...“ og fauk þar með opnun sem við Búsetar töldum frumvarpið vera fyrir lánveitingum til byggingar búseturéttaríbúða. Þessi niðustaða var flóknari en virtist við fyrstu sýn. Þarna urðu hrossakaup þar sem við sögu kom ávaxtadrykkur sem fáum þótti sérstaklega bragðgóður.

Þegar örlög frumvarpsins urðu opinber efndi Búseti til mótmælafundar á Austurvelli 21. maí 1984 þar sem Alþingismönnum var boðið upp á Mangósopa sem framleiddur var af Mjólkursamsölunni. Ályktun var samþykkt á fundinum þar sem sagði m.a.: Öll fyrirheit félagsmálaráðherra voru þverbrotin og þær þúsundir landsmanna sem kosið hafa þessa nýju leið í húsnæðismálum eru sviptar öllum möguleikum á öruggu húsnæði. Það var gild ástæða fyrir því að boðið var upp á einmitt þennan drykk á Austurvelli á þessum útifundi!

Boðið upp á Mangósopa á útifundi á Austurvelli

Sá mæti maður Jón Helgason frá Seglbúðum var landbúnaðarráðherra í ráðuneyti Steingríms Hermannsonar 1983-1987. Frumvarpið um Húsnæðisstofnun ríkisins var einu sinni sem oftar fyrir Alþingi á síðustu dögum þingsins vorið 1984 og ríkti nokkur bjartsýni meðal okkar um framgang þess eins og fram hefur komið áður. Örlagavaldur var söluskattur á kakómjólk og mangósopa sem framleiddir voru af Mjólkursamsölunni. Ekki hafði verið greiddur söluskattur af þessum vörum, en Albert Guðmundsson sem þá var fjármálaráðherra leitaði aura í öllum krókum og kimum og eygði þarna möguleika á tekjuöflun. Fjármálaráðherra taldi brotin lög með því að undanskilja þessar vörur frá álagningu söluskatts. Þetta væri því lögbrot. Framsóknarflokkurinn stóð vörð um framleiðslu Mjólkursamsölunnar og undi því ekki að lagður skyldi söluskattur á þessar vörur. Þá kom upp staða sem oft er kennd við hrossakaup í pólitíkinni. Af hverju ekki að semja um að 33. grein frumvarpsins verði halastýfð og Búseti þar með úti í kuldanum, fyrir Sjálfstæðisflokkinn, og í staðinn yrði ekki gerð krafa um að Mangósopinn bæri söluskatt, fyrir Framsóknarflokkinn?

Skipmynd Sigmund í Morgunblaðinu

Skopmynd Sigmund sem birtist í Morgunblaðinu eftir afgreiðslu málsins. Í texta stendur „Ást er að teyga guðaveigar úr sömu hyrnunni.“