Stofnun Búseta

Þrír Jónar

Í byrjun apríl 1983 birtist í Þjóðviljanum grein eftir Jón Rúnar Sveinsson félagsfræðing þar sem hann lýsir búseturéttarfélögum í Svíþjóð. Sænsku leigjendasamtökin eru aðilar að sænsku samtökum búseturéttarhafa, en Jón Rúnar var í stjórn íslensku leigjandasamtakanna.

Stjórn Landsambands íslenskra samvinnustarfsmanna (LÍS) var á þessum árum að kanna húsnæðismál eldra fólks á Norðurlöndum. Einn úr þeirra röðum, Pétur Kristjónsson, faðir Helga Péturssonar í Ríó tríói, núverandi formanns Landssambands eldri borgara, og Gissurar Péturssonar, síðar ráðuneytisstjóra, var í Svíþjóð og vann hjá samtökum sænskra samvinnustarfsmanna. Hann var, fyrir tilstilli LÍS, að afla upplýsinga um húsnæðismál eldra fólks í Svíþjóð og öðrum Norðurlöndum.

En aftur að greininni í Þjóðviljanum. Reynir Ingibjartsson nokkur, þá starfsmaður LÍS, brást við grein Jóns Rúnars og boðaði til fundar með honum og Jóni frá Pálmholti sem var formaður Leigjendasamtakanna. Sá fundur var haldinn 22. apríl 1983 í Hamragörðum við Hávallagötu, sem þá var félagsheimili samvinnumanna. Það má líta svo á að með þessum fundi hafi búsetahreyfingunni verið ýtt úr vör. Til að gera langa sögu stutta, má lesa í gestabókum Hamragarða að ári síðar höfðu verið skráðir 72 fundir um málefni búseturéttar og tengdust þessu fyrirhugaða félagi sem síðar fékk nafnið Búseti.

Skoðum nánar þessi upphafsár.

Þrír Jónar í Svíþjóð

Leigjendasamtökin voru farin að huga að málefnum húsnæðissamvinnufélaga á árunum eftir 1980. Það hafði ekki orðið neitt úr þeirra vangaveltum fyrr en kannski þarna á þessum fundi í Hamragörðum. Niðurstaða fundarins var að banka upp á hjá Svavari Gestssyni sem þá var félags-, heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra í stjórn Gunnars Thoroddsen, og kanna hvort hægt væri að fá styrk til Norðurlandafarar, eða alla vega til Svíþjóðar til að kynna sér og fræðast um húsnæðismál. Þetta leiddi til þess að þeir nafnarnir; Jón Rúnar Sveinsson, Jón frá Pálmholti og Jón Ásgeir Sigurðsson, síðar fréttamaður hjá RÚV, fóru til Svíþjóðar og skoðuðu sig um hjá HSB, sem var, og er eitt af stóru húsnæðisfélögunum í Svíþjóð og nefnt var áður í tengslum við innflutning timburhúsa til Íslands á 5. áratug síðustu aldar. Hugsanlegt er að styrkveitingin hafi verið með síðustu verkum Svavars í þessari ríkisstjórn, því hún fór frá 26. maí 1983 og var þá blásið til kosninga og í kjölfarið skipuð ný ríkisstjórn. 

Að lokinni Svíþjóðarför komu þeir Jónarnir til baka, bergnumdir af því sem þeir höfðu séð og lært. Var strax farið að huga að því hvernig mætti koma á svipuðu fyrirkomulagi hér á Íslandi. Hófust fundarhöld með ýmsum máttarstólpum þjóðfélagsins og lágu best við höggi þingmenn og forystufólk í verkalýðshreyfingunni. Þarna var tekin við ríkisstjórn Steingríms Hermannssonar, þ.e. samstarf Framsóknarog Sjálfstæðismanna. Alexander Stefánsson var félagsmálaráðherra í þeirri ríkisstjórn og var haldið á hans fund. Leigjandasamtökin eru skrifuð fyrir þessum fundum ásamt LÍS, því Reynir Ingibjartsson kom úr þeirri áttinni. Búseti var jú ekki til á þessum tíma. Alexander tók þeim félögum vinsamlega, en litlum sögum fer af árangri. Það varð þó ekki aftur snúið og margir ráðherrar máttu hér eftir eiga von á heimsókn okkar fólks.

Fyrsti starfsmaðurinn

Þetta haust, 1983, var ákveðið að skrifstofa LÍS flyttist norður yfir heiðar til Akureyrar. Þar voru mjög öflug og stór samvinnufyrirtæki svo úr varð að skrifstofan og þungi starfseminnar fluttist norður. Það lá því fyrir að Reynir Ingibjartsson missti vinnu sína sem eini starfsmaður LÍS. Var þá ekki góð hugmynd að hann færi að sinna af fullum krafti stofnun húsnæðissamvinnufélags, sem ekki hafði fengið nafn.

Stofnfundir

Ekki er hægt halda öðru fram en að stofnun félagsins hafi heilt yfir gengið mjög vel. Það var velvilji úr flestum áttum og á örstuttum tíma skráðu sig 2.140 manns í félagið sem gaf kannski mynd af þeirri þörf sem fyrir var. Mikil umfjöllun var um félagið og þessar hugmyndir og forsvarsmenn voru eins og þeytispjöld um allar trissur að vinna málstaðnum brautargengi. Ákveðið var að halda undirbúningsstofnfund þann 15. október 1983 á Hótel Borg.

Frá seinni stofnfundi 26. september 1983

Á undirbúningsfundinum kom í ljós gífurlegur áhugi fyrir félaginu. Fullt var út úr dyrum og hátt á þriðja hundrað manns gerðust félagsmenn. Ekki reyndist unnt að ganga frá samþykktum félagsins á þessum fundi og var kosin bráðabirgðastjórn til að hnýta lausa enda, halda áfram söfnun nýrra félaga og boða til stofnfundar „eigi síðar en 1. desember“. Bráðabirgðastjórnina skipuðu þau Jón frá Pálmholti, Auður Styrkársdóttir, Birna Þórðardóttir, Guðni A. Jóhannesson, Guðný Gerður Gunnarsdóttir, Jón Rúnar Sveinsson og Reynir Ingibjartsson. Bráðabirgðastjórnin boðaði til framhaldsstofnfundar 26. nóvember 1983 á Hótel Borg þar sem gengið var formlega frá stofnun fyrsta húsnæðissamvinnufélags landsins. Félagar voru þá 760 talsins og var eftir því tekið að nokkuð jöfn kynjaskipting var milli félagsmanna. Samþykktir félagsins voru samþykktar og kosið í fyrstu stjórn þess samkvæmt þeim. Jón Rúnar Sveinsson var kjörinn formaður og aðrir í stjórn voru Auður Styrkársdóttir, Ásdís Ingólfsdóttir, Birna Þórðardóttir, Guðni A. Jóhannesson, Gísli Hjaltason og Reynir Ingibjartsson. Í varastjórn voru kjörin Jón Ásgeir Sigurðsson, Harpa Njáls, Kolbrún Gunnarsdóttir, Páll Gunnlaugsson og Sigurjón Þorbergsson. Á þriðja hundrað manns sóttu einnig framhaldsstofnfundinn og var mikil stemning í loftinu. Ávörp fluttu Birgir Marinósson, formaður LÍS, og Eysteinn Jónsson, fyrrverandi ráðherra og áhugamaður um félagslegar lausnir í húsnæðismálum, eins og þekkt var.