Þorláksgeisli

Fyrstu íbúðir leigufélagsins

Fyrstu íbúðir Leigufélags Búseta voru byggðar við Þorláksgeisla í Reykjavík. Um var að ræða fjögur einföld hús með samtals 60 íbúðum. Félagsmálaráðherra, Páli Péturssyni, og borgarstjóra Reykjavíkur, Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur, var boðið til skóflustungunnar enda tímamót þar sem hefja átti framkvæmdir við byggingu leiguíbúða fyrir almenning í fyrsta sinn samkvæmt nýjum lögum.

Ingibjörg Sólrún og Páll taka skóflustungu

Leitað var ýmissa leiða til að kaupa eða byggja íbúðir fyrir leigufélagið, en þær voru vandfundnar þar sem kröfur Íbúðalánasjóðsum stærð og verð rímuðu ekki við markaðsverð eins og stundum áður. Við keyptum síðar m.a. „leigufélög“ sem verktakar höfðu stofnað til þegar lánaflokkurinn opnaðist!

Leigufélag Búseta rekur nú 224 íbúðir í Reykjavík, Garðabæ og Mosfellsbæ og gengur reksturinn vel. Það sýndi sig strax að þessi kostur var eftirsóttur, sérstaklega ef ekki voru til fjármunir til að standa undir kostnaði við kaup á búseturétti eða innborgun fyrir eigin íbúð.

Eftir að Bjarni Þór Þórólfsson tók við framkvæmdastjórastöðu árið 2017 voru áherslur leigufélags skerptar og félögin aðskilin betur með sérstakri vefsíðu og aðlöguðu lógói. Félagið er með vandaða heimasíðu lfb.is þar sem eru aðgengilegar upplýsingar um félagið.