Tímamót í sögu Búseta
Þann 9. mars 2016 var undirrituð viljayfirlýsing milli Búseta og Reykjavíkurborgar þess efnis að Búseti fengi byggingarrétt fyrir 226 íbúðir á nokkrum stöðum í borginni. Undirskriftin fór fram við Árskóga í Suður-Mjódd, þar sem gert var ráð fyrir að Búseti byggði 50 íbúðir. Auk þeirra var í viljayfirlýsingunni, með fyrirvörum um endanlegt deiliskipulag, gert ráð fyrir 60 íbúðum að Keilugranda 1, 20 íbúðum við Skógarveg 16 og síðan allt að 100 íbúðum á smærri þéttingarreitum. Dagur B. Eggertsson undirritaði viljayfirlýsinguna fyrir hönd Reykjavíkurborgar og Gísli Örn Bjarnhéðinsson fyrir hönd Búseta. Skömmu síðar hætti Gísli störfum hjá Búseta og Bjarni Þór Þórólfsson tók við sem framkvæmdastjóri félagsins, um það leyti sem sjálf uppbyggingin hófst.
Viljayfirlýsing milli Búseta og Reykjavíkurborgar undirrituð
Viljayfirlýsingin var í samræmi við markmið húsnæðisstefnu Reykjavíkurborgar. Húsnæðisstefnan fólst í byggingu fjölbreyttra húsagerða, blöndunar íbúðagerða innan hverfa og aukið framboð smærri íbúða fyrir alla félagshópa. Markmið Reykjavíkurborgar með úthlutun lóðanna til Búseta var að stuðla að fjölbreyttara húsnæðisframboði breiðs hóps í samfélaginu og reyna að skapa húsnæðisgrundvöll fyrir fjölda einstaklinga sem annars gætu þurft á aðstoð að halda. Þannig væri byggð brú milli leigu- og eignaríbúða. Reykjavíkurborg vildi þannig stuðla að blöndun eignarforma í samvinnu við félag sem rekið væri án hagnaðarsjónarmiða.
Í húsnæðisáætlun Reykjavíkurborgar eru töluleg markmið um þann fjölda íbúða sem þurfa að fara í uppbyggingu til lengri og skemmri tíma. Þá eru skilgreind helstu byggingarsvæði í Reykjavík og hvernig uppbyggingu íbúðarhúsnæðis sem Reykjavíkurborg beitir sér sérstaklega fyrir verður háttað í samvinnu við verkalýðshreyfinguna, húsnæðissam vinnufélög, samtök eldri borgara, stúdenta og einkaaðila, auk eigin leigufélags borgarinnar, Félagsbústaða.
Á árunum 2017 til 2023 fjölgaði búsetuíbúðum um ríflega 600. Hluti fjölgunarinnar byggir á umræddri viljayfirlýsingu.
Búseti var að hefja sig til flugs á ný eftir erfið ár!
Frá skóflustungu við Austurkór í Kópavogi í október þetta sama ár og viljayfirlýsingin var undirrituð. Búseti á þar þrjú hús með samtals 18 íbúðum